Loading Events

EMDR áfallameðferð – fyrra námskeið

Þann 5. til 7. júní næstkomandi verður haldið fyrra námskeið af tveimur (level 1) í EMDR áfallameðferð.  Námskeiðið felst í fyrirlestrum, vídeóum með dæmum um notkun aðferðarinnar, sýnikennslu auk þess sem þátttakendur æfa sig í notkun aðferðarinnar,  undir handleiðslu, í þriggja manna hópum.

Hvar er námskeiðið haldið?

Námskeiðið verður haldið í húsnæði EMDR stofunnar í Vallakór 4, 3. hæð, 203 Kópavogur.

Námskeiðið stendur yfir í þrjá daga:

  • 5. júní 8:30 til 17
  • 6. júní 8:30 til 17
  • 7. júní 9 til 16

Verð á námskeiðinu:

Námskeiðið kostar 127.000 kr.  Kaffi, te, vatn, snarl og hádegismatur er innifalinn í verði.

Kröfur til þáttakenda

Félagið EMDR á Íslandi setur eftirfarandi kröfur:

  • Vakin er athygli á því að á EMDR námskeiðum er ekki verið að kenna grunn í greiningu og meðferð sálræns vanda. Því þurfa þátttakendur að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
  • Þátttakendur þurfa að hafa að lágmarki klíníska mastergráðu eða ígildi hennar á geðheilbrigðissviði.
  • Þátttakendur þurfa að tilheyra fagfélagi sem hefur skilgreindar siðareglur.
  • Háskólanám þeirra þarf að hafa innihaldið námskeið í geðgreiningum.
  • Þá er krafist að lágmarki eins árs starfsreynslu við sálræna meðferð að námi loknu.
  • Þátttakendur þurfa að skila vottorði um að hafa hlotið að lágmarki 20 handleiðslutíma. Þar af þurfa að minnsta kosti 10 að vera einstaklingshandleiðsla.
  • Umsækjendur þurfa að senda inn gögn sem staðfesta ofangreint með umsókn sinni. Vafamál eru lögð fyrir fund hjá EMDR á Íslandi.

Þátttakendur á námskeiðinu þurfa að lesa bókina Eye Movement Desensitization and Reprocessing: Basic Principles, Protocols and Procedures, eftir Francine Shapiro, Ph.D.

Ýtarlegt myndband með Francine Shapiro, Ph.D. (58 min)

Þátttakendur æfa sig hver á öðrum á námskeiðinu þannig að hver og einn þarf að vinna með eitthvað efni sem truflar eða veldur vanlíðan.

Kennari á námskeiðinu

Roger M. Solomon, Ph.D verður með námskeiðið.

Roger er sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í áföllum og sorg.  Hann er kennari á vegum EMDR Institute og hefur kennt við stofnunina í áraraðir.  Hann er einnig viðurkenndur kennari af EMDR Europe.

Hann starfar meðal annars fyrir U.S. Senate þar sem hann notar EMDR á skjólstæðinga sem aðrir meðferðaraðilar eru að vinna með.  Þá starfar hann sem lögreglusálfræðingur og vinnur með lögreglumönnum sem hafa upplifað starfstengd áföll.  Hann kennir einnig á Art of EMDR námskeiðunum þar sem EMDR meðferðaraðilar geta sótt sér viðbótarþjálfun ef þeir kjósa.

Hann hefur áður kennt á EMDR námskeiðum á Íslandi og kennir auk þess á EMDR námskeiðum víðsvegar um heiminn.

Hver eru megin viðfangsefni?

Á námskeiðinu er meðal annars  farið yfir hvernig upplýsingaúrvinnslukerfið (information processing system) virkar.  Kennd verður aðferð við að taka sögu skjólstæðings til að koma auga á dysfunctional mynstur og orsakir.  Þá er kennt hvernig á að byggja upp meðferðaráætlun sem tekur á fortíðaratburðum, kveikjum í nútíðinni og framtíðarþörfum skjólstæðingsins.

Hér má lesa nánar um námskeiðið.

Viðurkenning á þátttöku

Veitt er staðfesting á þátttöku (20 tímar) að námskeiði loknu.  Viðurkenningarskjal um að þátttakandi hafi lokið EMDR Basic training fæst að loknum báðum námskeiðum og 10 tíma handleiðslu.  Það þarf að skrá sig sérstaklega á seinna námskeiðið.

Að námskeiði loknu  – hóphandleiðsla

Að námskeiði loknu þarf 5 tíma hóphandleiðslu (veitt af Gyðu Eyjólfsdóttur sálfræðingi sem er EMDR Institute viðurkenndur facilitator og EMDRIA viðurkenndur handleiðari).

Ljúka þarf handleiðslunni til að fá réttindi til að sitja seinni hluta námskeiðsins og þarf einnig 5 tíma handleiðslu eftir það. Greiða þarf sérstaklega fyrir hóphandleiðsluna, 4.000 kr per klst.

Um EMDR

Eye Movement Desensitization and Reprocessing (EMDR) var „uppgötvað“ af Francine Shapiro árið 1987.  Síðan 1989 hafa verið framkvæmdar yfir 30 samanburðarrannsóknir (slembiúrtak skjólstæðinga með PTSD greiningu) á virkni EMDR.  Rannsóknir sýna að 77-100% skjólstæðinga sem lenda í einu afmörkuðu áfalli ná að vinna úr því á þremur til sex viðtalstímum með EMDR og uppfylla þá ekki lengur greiningarskilmerki áfallastreituröskunar.  Fólk með sögu um margskonar áföll þarf fleiri viðtöl.  Í EMDR meðferð á vinnan sér fyrst og fremst stað í viðtölum, ekki er um heimavinnu að ræða.  Algengt er að fólk finni mun á líðan sinni í eftir fyrsta úrvinnslutíma.

World Health Organization mælir með áfallamiðaðri HAM nálgun og EMDR sem aðferðum til að vinna með áföll.  Ameríska geðlæknafélagið mælir með EMDR sem árangursríkri aðferð í áfallameðferð. NICE guidelines benda á áfallamiðaða HAM nálgun og EMDR fyrir fullorðna með áfallastreituröskun.  Fyrir börn með áfallastreituröskun er einnig mælt með HAM og EMDR.  Fleiri félög og samtök mæla með EMDR  auk annarra nálgana sem meðferð við áfallastreituröskun.

Ásókn í EMDR meðferð hefur aukist jafnt og þétt á Íslandi síðustu ár.  Það er algengt að skjólstæðingar óski eftir þessari meðferð.  Íslenskir sálfræðingar hafa verið duglegir að sækja sér EMDR þjálfun og láta vel af námskeiðinu.  Þá eru milli þrjú og fjögurhundruð heimsóknir á vefsíðu EMDR á Íslandi  í hverjum mánuði og er greinilegt á þeim heimsóknum að fólk er að leita sér að meðferðaraðila sem kann EMDR.

Skráning

Fylla þarf út umsókn um þátttöku og senda á Gyðu Eyjólfsdóttur, sálfræðing á netfangið [email protected]  Frekari upplýsingar má fá á því netfangi og í síma 866-0110.

Í umsókn um EMDR Level 1 námskeið þarf að koma fram:

  • Nafn
  • Kennitala
  • Heimilisfang
  • Póstnúmer
  • Sveitarfélag
  • Gsm sími
  • Netfang
  • Gráða
  • Fagstétt
  • Nafn og kennitala greiðanda
  • Vottorð um handleiðslu
  • Afrit af prófskírteini 
  • Staðfesting á að hafa setið námskeið í geðgreiningum sem hluta af háskólanámi
  • Afrit af löggildingu 
  • Staðfesting á að tilheyra fagfélagi með skilgreinar siðareglur

Sendu upplýsingarnar á netfangið [email protected]  Ef vafi leikur á hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru til þátttakenda, er fengin umsögn um umsóknina hjá stjórn félagsins EMDR á Íslandi.

 

 

 

 

 

Deildu á samfélagsmiðla