Flest verðum við fyrir einhverjum áföllum í lífinu. Heilinn okkar vinnur sem betur fer úr þeim flestum.  

Ef tiltekin einkenni eftir áfall eru enn til staðar mánuði eftir atvikið þá getur verið að viðkomandi sé með einkenni áfallastreituröskunar.

Við áfallastreituröskun getur verið hjálplegt að fá aðstoðar fagaðila við að meta hvort svo sé og hvað sé til ráða.

Hvað getur stuðlað að áfallastreituröskun?

Áfallastreituröskun getur fylgt í kjölfarið á:

  • alvarlegu áfalli sem einstaklingur verður fyrir
  • áfalli sem einstaklingur verður vitni að
  • slysi eða áfalli sem náinn ættingi eða vinur lenti í og einstaklingur heyrir um

Viðbrögðin við atburðinum einkennast af hjálparleysi, ótta og hryllingi.

Líðan einstaklingsins getur einkennst af ýmiskonar sálrænum, líkamlegum og andlegum einkennum.  Einkennin geta valda mikilli vanlíðan og haft áhrif á daglegt líf viðkomandi.

Einstklingurinn endurupplifir atburðinn á einhvern hátt.  

Til dæmis með:

  • erfiðum minningum
  • martröðum
  • endurtillit (flashback)

Hvernig birtist áfallastreituröskun?

Tilfinninga- og líkamleg vanlíðan getur komið fram ef eitthvað minnir á atburðinn. Algengt að fólk forðist það sem minnir á atburðinn til að komast hjá vanlíðan. Sumir eiga erfitt með að muna allt sem gerðist í atvikinu.  

Einstaklingurinn hefur alla jafna neikvætt viðhorf og dregur neikvæðar ályktanir um sig og/eða lífið. Hann hættir til að ásaka sig eða aðra óhóflega fyrir að hafa orsakað atvikið.  Hann upplifir tilfinningalega vanlíðan. Hún einkennist meðal annars af áhugaleysi, einangrun og erfiðleikum með að finna fyrir jákvæðum tilfinningum.

Önnur einkenni eru meðal annarra:

  • bregða auðveldlega
  • vera mikið á verði
  • erfiðleikar með einbeitingu og svefn

Hvað þarf að hafa í huga ef áfallaröskun er til staðar?

Það er gott að hafa í huga að einstaklingur er ekki “aumingi” fyrir að upplifa einkenni áfallastreituröskunar. Við ráðum sjálf ósköp lítið yfir því hvað heilinn okkar ræður við á hverjum tíma þegar alvarlegt áfall er annars vegar.

Stundum “frýs” áfallið og skráist ekki í kollinum á okkur á venjulegan hátt.  Áfallið heldur i áfram að valda okkur vanlíðan þótt atvikið sé liðið.

Hvaða meðferðarform hentar til að takast á við áfallaröskun?

Í klínískum leiðbeininingum um meðferð áfallastreituröskunar er mælt með EMDR áfallameðferð og áfallamiðaðri hugrænni atferlismeðferð.

EMDR meðferð er öflug leið til að hjálpa okkur að skrá áfallið á nýjan hátt svo að það valdi okkur ekki sömu vanlíðan og áður. Í EMDR fræðunum er talað um að upplýsingaskráningakerfið okkar hafi ekki ráðið við atvikið. EMDR meðferð stuðlar að því að upplýsingakerfið okkar ráði við það.

Það eru til aðrar aðferðir en EMDR meðferð til að vinna með áföll, eins og til dæmis áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð.

Ofangreindar upplýsingar eru meðal annars teknar úr handbók ameríska geðlæknafélagsins um geðgreiningar (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders 5).

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði

Árangurslausar barneignatilraunir geta tekið á tilfinningar okkar.  Margir kjósa að leita sér aðstoðar sálfræðings þegar tæknifrjóvgunarmeðferð er fyrirsjáanleg.

Á EMDR stofunni starfa meðferðaraðilar með mikla þekkingu á tilfinningahliðum ófrjósemi.

Við hjálpum einnig þeim sem:

  • eiga sögu um “ófrjósemi”
  • vilja undirbúa sig undir tæknifrjóvgunarmeðferðir í framtíðinni
  • hafa lokið tæknifrjóvgunum en líður illa  

Gyða hefur sinnt þessum málaflokki frá árinu 2005 en hefur dregið úr því frá 2019. Hrafnheiður Baldursdóttir sálfræðingur var í þessum málaflokki á EMDR stofunni en er flutt yfir á Samkennd heilsusetur og hægt að ná í hana þar. Guðrún Soffía Gísladóttir sálfræðingur var einnig í þessum málaflokki á EMDR stofunni og hefur hún einnig sérþekkingu á líðan kvenna á meðgöngu eftir missi. Meistararitgerð hennar fjallar um það efni. Guðrún er núna við störf hjá Mín líðan.

Hvað er ófrjósemi?

Mörgum finnst orðið ófrjósemi ekki fallegt til að lýsa erfiðleikum við barneignartilraunir. Flestir sem eiga við slíka erfiðleika að etja eignast barn á endanum og eru þar af leiðandi ekki ófrjóir!

Áhrif á frjósemi

Tilfinningar virðast hafa áhrif á frjósemi. Sem dæmi má nefna rannsókn Alice Domar, Ph.D., sálfræðings hjá Domar Center í Bandaríkjunum. Hún hefur rekið svokallaðan mind/body hóp um áraraðir og hefur rannsakað áhrif hans á frjósemi þátttakenda.

Um er að ræða 9 vikna hóp sem hittist vikulega. Í honum er boðið upp á ýmiskonar fræðslu, slökun, stuðning og fleira. Innan árs frá því að hópnum lýkur eru ríflega helmingur þátttakenda orðnar þungaðar meðan einungis 20% kvenna í samanburðarhóp eru orðnar þungaðar.

Bókakápa-Conquering InfertilityVið mælum eindregið með bók Alice Domar – Conquering Infertility en í þeirri bók má sjá ýmis þau bjargráð sem notuð eru í hópnum, auk góðrar fræðslu um áhrif “ófrjósemi” á tilfinningalíf fólks.

Hópmeðferð

Í maí 2008, fór Gyða til Boston og tók námskeið hjá Alice Domar í að leiða svona hóp.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í svona námskeiði/hópi hafðu þá samband.

Einstaklings- eða parameðferð

Þegar til okkar leitar einstaklingur eða par með sögu um árangurslausar barneignartilraunir er algengt að viðkomandi sé kominn með kvíða- og þunglyndiseinkenni.

Flestir segja að “ófrjósemin” sé það erfiðasta sem þeir hafa þurft að takast á við á lífsleiðinni.

Það er misjafnt hversu opnir einstaklingar eru með þennan vanda. Flestir eiga erfitt með að vera í kringum lítil börn og ófrískar konur.  

Velmeinandi ættingjar sem spyrja “hvenær á svo að koma með eitt” hjálpa ekki til?

Oft óska einstaklingar og pör eftir ráðgjöf:

  • til að sættst við niðurstöðu síðustu meðferðar
  • eftir fósturlát
  • vegna undirbúnings fyrir næstu meðferð
  • til að hlúa að sambandi við maka
  • við skoða næstu skref
  • vegna stuðning til að hætta meðferðum
  • ræða möguleika varðandi gjafafrumur
  • fá að vita hvaða þjónusta er í boði
  • til að fá fræðslu

Djúpslökun og dáleiðsla

Margir óska eftir djúpslökun eða dáleiðslu sem er þá tekin upp.  Upptakan brennd á disk og notuð í meðferðarferlinu til að auka vellíðan og mögulega auka líkur á jákvæðri niðurstöðu.

Rannsóknir hafa sýnt að dáleiðsla í uppsetningu fósturvísa auka líkurnar á jákvæðri niðurstöðu.

Hver og einn verður því að finna þá leið sem hentar honum/henni í þessu ferli.

Stór hluti af ráðgjöfinni gengur út á það að finna hvað einstaklingurinn þarf til að geta betur tekist á við þær tilfinningar sem vakna í tæknifrjóvgunarmeðferð.

Þar sem EMDR meðferð snýst meðal annars um skráningu upplýsinga þá getur EMDR meðferð hjálpað mikið tilfinningalega.  Sem dæmi er hægt að taka fyrir:

  • ég er gölluð/gallaður
  • líkami minn bregst mér
  • greiningin á ófrjóseminni
  • tilhugsun um eggheimtu
  • reynsla af erfiðri eggheimtu
  • tilhugsun um neikvæða niðurstöðu
  • byggja upp von fyrir næstu meðferð
  • byggja upp sjálfstraust

Þá hefur Marilyn Luber, Ph.D. gefið út bækur með ýmsum leiðbeiningum um hvernig má nýta EMDR meðferð með ýmis vandamál.

Hér er hlekkur á eina bók Marilyn, en kafli 12 fjallar um hvernig nýta má EMDR til að vinna með ófrjósemi.

Þá er einnig hægt að nýta aðrar meðferðir til að styðja skjólstæðinga í þessu ferli.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði

Mynd sýnir App á síma sem er stuðningur við glasafrjóvgunarmeðferðir.

Gyða hefur í félagi við Berglindi Ósk Birgisdóttur, hjúkrunarfræðing hannað app sem styður við fólk í glasameðferðum.  Sjá nánar inni á 

http://www.ivfcoaching.com

Tilfinningahliðar ófrjósemi – DVD

Gyða hefur einnig gefið út DVD disk um tilfinningahliðar ófrjósemi.  

DVD diskur - stuðningsefni við glasafrjóvgunarmeðferðir.

Diskurinn getur gagnast þeim sem vilja fræðast um tilfinningahliðar ófrjósemi, bæði þeim sem eiga í vandræðum með að eignast barn, sem og aðstandendum þeirra.

Diskurinn er til sölu hjá Gyðu og kostar hann 3.000 krónur sé hann sóttur en 3.500 krónur sendur í pósti.

Hægt er að hafa samband við hana á netfanginu gyda[hjá]emdrstofan.is

Sjá m.a. https://vimeo.com/57940672

Áherslur á DVD disknum

Í tilfinningahliðum ófrjósemi fer Gyða yfir þá líðan sem getur fylgt því að eiga erfitt með að eignast barn.

Hún talar um áhrifin á:

  • sjálfsmyndina
  • samskipti við maka ef maki er til staðar
  • erfiðleikana við að heyra um óléttur annarra
  • áhrifin á samskipti við fjölskyldu og vini
  • áhrifin á kynlífið
  • kvíða og þunglyndi
  • endurteknar meðferðir
  • undanfara þess að hætta meðferðum
  • „góðu ráðin“ og fleira.

Þá fer hún yfir líðan aðstandenda og svarar spurningum úr sal.

Gyða hefur verið í samstarfi við Tilveru – samtök um ófrjósemi, frá árinu 2005.

Gyða hittir árlega um tuttugu prósent af þeim konum og pörum sem eru í glasameðferðum hjá Art Medica (IVF klíníkin/Livio frá 2016).

Hún hefur haldið þennan fyrirlestur á vegum Tilveru nokkrum sinnum á síðustu árum við góðar undirtektir áheyrenda.

Hér má lesa umsagnir nokkurra áhorfenda

“Fyrirlestur Gyðu hittir beint í mark. Hann fékk mig til að skilja betur mína eigin líðan og konunnar minnar og hvernig við höfum brugðist við ófrjóseminni á mismunandi hátt. Eftir að hafa glímt lengi við ófrjósemi verð ég að segja að þessi fyrirlestur er besta fræðsluefnið sem ég hef séð á þessu sviði. Mæli hiklaust með þessum disk og vildi að ég hefði séð hann fyrr“ – 38 ára karl, óútskýrð ófrjósemi, 10 uppsetningar, eitt barn.

„Eftir að hafa hlýtt á þennan fyrirlestur þá hef ég sofið betur en síðustu sex ár, léttirinn var svo mikill. Ég er hætt í feluleik. Upplýsingarnar í fyrirlestrinum hafa hjálpað okkur að skilja hvort annað. Ég skil hann mun betur og hann skilur mig mun betur“ – 32 ára kona, óútskýrð ófrjósemi, 6 ár.

“Þetta styrkti okkur í baráttunni og mér fannst maðurinn minn átta sig betur á því sem ég var að ganga í gegnum, og öfugt”- 37 ára kona, 6 tæknifrjóvganir, 2 fósturlát, einn kraftaverkadrengur fæddur.

„Ég er búin að segja fólki frá ófrjóseminni og léttirinn er mikill. Núna þegar ég skil að líðan mín er eðlileg þá á ég auðveldara með að segja öðrum hvernig mér líður. Ég er að fá mun meiri stuðning og skilning en ég átti von á“ – 32 ára kona, glasameðferðir, fósturlát.

„Ég fékk miklu meiri skilning á hvað þetta er hrikalega mikið álag. Fyrirlesturinn dýpkaði skilning minn á því sem börnin mín hafa gengið í gegnum. Ég skil betur ólík viðbrögð þeirra og þennan kynjamun. Ég skil betur að ég má sýna stuðning og það hefur hjálpað okkur öllum“. – 60 ára kona, á tvö börn sem bæði hafa þurft glasameðferðir til að eignast börn.

Margir þættir geta orsakað þunglyndi. Þessir þættir geta bæði verið vegna erfða og vegna umhverfis. Félagslegar aðstæður, erfið lífsreynsla, stuðningur og tengslamótun í æsku geta haft áhrif á viðbrögð okkar við álagi.

Neikvæð lífsreynsla og áföll á lífsleiðinni geta aukið næmni okkar fyrir þunglyndi. Þannig geta til dæmis erfiðar aðstæður í æsku aukið líkur á þunglyndi á fullorðinsárum.

Dæmi um neikvæða lífsreynslu og áföll eru meðal annars:

  • vanræksla í æsku
  • andlegt og líkamlegt ofbeldi
  • kynferðislegt ofbeldi
  • missir (t.d. fósturlát, barn, foreldrar, vinna, nákomnir, heilsa)
  • heimilisofbeldi

Það eru ekki allir sem fá þunglyndi í kjölfar neikvæðrar lífsreynslu eða áfalla. Ef þú finnur fyrir þunglyndi getur verið hjálplegt að fá aðstoð fagaðila við að meta hvort meðferðar sé þörf og hvaða meðferðarúrræði geta hentað þér.   

Hvaða meðferðir henta við þunglyndi?

Samkvæmt klínískum leiðbeiningum við þunglyndi skal hugræn atferlismeðferð (HAM) vera fyrsta val. Hjá EMDR stofunni er hægt að fá hugræna atferlismeðferð við þunglyndi.

EMDR meðferð er meðferðarform sem fellur ekki undir klínískar leiðbeiningar við þunglyndi. Engu að síður hefur árangur EMDR meðferðar verið rannsökuð víða um heiminn og niðurstöður lofa góðu. Meðferðaraðilinn þinn skoðar þá með þér hvað getur hafa komið þunglyndinu af stað, og EMDR meðferð beitt á viðeigandi minningar sem minnkar þunglyndiseinkenni í kjölfarið og vellíðan eykst.

EMDR meðferð og rannsóknir á þunglyndi

Á ráðstefnu Evrópusamtaka EMDR, árið 2018, var varpað ljósi á rannsóknir sem hafa verið gerðar á síðustu árum. Niðurstöður þeirra var að EMDR meðferð og hugræn atferlismeðferð sýndu sama árangur hvað þunglyndi varðar. Rannsóknirnar voru þó misjafnar að gæðum og fjölda þátttakanda.

Í einni rannsókn voru þátttakendur sem sýndu ekki góða svörun við venjubundinni þunglyndismeðferð. Þeim var skipt í tvo hópa.

  • helmingur þeirra fékk EMDR meðferð til viðbótar við venjubundna meðferð
  • hinn helmingurinn fékk eingöngu venjubundna (HAM) meðferð

Báðir hópar lækkuðu vel á mælitækjum sem mæla þunglyndiseinkenni.  

Þegar athugað var með líðan sex mánuðum eftir að meðferð lauk, var 80% þátttakenda sem fengu EMDR viðbótina enn lausir við þunglyndi. Í hinum hópnum voru 50% sem fengu venjubundna meðferð voru lausir við þunglyndið.

Almennt er talað um það í EMDR fræðunum að EMDR meðferð við þunglyndi lofi góðu en fleiri rannsóknir þurfi.

Hægt er að lesa sér til um rannsóknir á EMDR meðferð við þunglyndi inni á Francine Shapiro Library Þegar þetta er ritað í júlí 2018 eru 657 greinar í tengslum við þunglyndi þar inni.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði

Kvíði getur verið okkur nauðsynlegur. Kvíði varar okkur við hættum og setur líkamann í viðbragðsstöðu. Líkaminn er tilbúinn að bregðast hratt við ef á þarf að halda. Þessi kvíði er raunhæfur ef hætta stafar að okkur.

Til er óraunhæfur kvíði. Hann getur birst án þess að hætta sé til staðar. Hann getur líka birst löngu eftir að hætta er liðin hjá.

Í streituvaldandi aðstæðum eins og langvarandi álagi eða áreiti getur komið fram kvíði.

Hægt er að meðhöndla kvíða. Ef þú finnur fyrir miklum eða langvarandi kvíða getur sálfræðimeðferð hjálpað þér.

Hvaða meðferð hentar við kvíða?

Samkvæmt klínískum leiðbeiningum við kvíða skal hugræn atferlismeðferð (HAM) vera fyrsta val. Hjá EMDR stofunni er hægt að fá hugræna atferlismeðferð við kvíða.

EMDR meðferð hefur gefist ágætlega við að minnka kvíða.  Hún er þó ekki viðurkennd meðferð samkvæmt klínískum leiðbeiningum við meðhöndlun kvíða.

Get ég farið í EMDR meðferð við kvíða?

Þú getur nýtt EMDR meðferð til að vinna með kvíða. Þú finnur út hvenær og í hvaða aðstæðum kvíðinn birtist fyrst með þínum meðferðaraðila. Reynt að finna atvik sem kom kvíðanum af stað og unnið með það.  

Í sumum tilfellum er um eitt einstakt atvik að ræða. Í mörgum tilfellum er um mörg atvik sem hafa tvinnast saman.  Þá er unnið með eitt eða fleiri atvik, eftir því hvað við á. Í hverri meðferð minnkar kvíðinn. Sjálfstyrking eykst í kjölfarið og líkamleg kvíðaeinkenni minnka verulega eða hverfa.

Meðferðaraðilinn þinn getur metið með þér hvort EMDR eða hugræn atferlismeðferð hentar þér betur.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði

Verkir sem vara í meira en þrjá mánuði eru oft kallaðir langvarandi verkir.  Slíkir verkir geta haft mikil áhrif á líðan okkar, bæði líkamlega og tilfinningalega.  

Kvíði, depurð og pirringur eru algengar tilfinningar hjá þeim sem eru með langvarandi verki.  

Það getur verið erfitt að fá skilning frá öðrum því langvarandi verkir sjást ekki endilega utan á okkur.  

Sálfræðimeðferð getur haft góð áhrif á þá sem kljást við langvarandi verki.

Þannig er hægt að bæta lífsgæði, auka virkni og draga úr kvíða, depurð og pirringi.  

Einnig er hægt að draga úr styrkleika verkjanna með ýmiskonar aðferðum.

EMDR og verkir

Starfsfólk EMDR stofunnar býr yfir mikilli þekkingu hvað langvarandi verki varðar og býður upp á margvíslegar nálganir í tengslum við verki.

Allir EMDR meðferðaraðilar hjá EMDR stofunni hafa einnig góða reynslu af því að nota EMDR verkjameðferð. Þá er yfirleitt byrjað á því að vinna áfallavinnu á þau atvik sem leiddu af sér verkjavanda og síðan beitt svokölluðu verkjaprótókóli sem gefur mjög góða raun.  Langflestir skjólstæðingar finna góðan mun á verkjum sínum á u.þ.b. 20 mínútum ef aðferðin hentar þeim.

Mark Grant, Ph.D. er sá EMDR meðferðaraðili sem hefur skrifað hvað mest um EMDR verkjameðferð en Jim Knipe, Ph.D. hefur einnig skrifað og haldið námskeið í tengslum við verkjameðferð.  Lesa má um EMDR og verki inni á Francine Shapiro Library.

Námskeið

Kynntu þér námskeið í verkjameðferð hjá EMDR stofunni.

Gyða Eyjólfsdóttir sálfræðingur býður upp á námskeið ásamt Moniku Skarphéðinsdóttur sálfræðingi sem kallast Líf með langvarandi verkjum. 

Þar er blandað saman hugrænni atferlismeðferð, núvitund, EMDR meðferð og fleiri nálgunum. Næsta námskeið hefst í september 2018. 

Námskeiðið er árangursmælt 6 vikna námskeið auk eftirfylgdar 4 vikum eftir síðasta tíma. 

Mælingar sýna að í kjölfar námskeiðsins upplifa þátttakendur aukin lífsgæði, minni kvíða, depurð og streitu, aukna virkni og minni verki. 

Þá hafa þeir tileinkað sér ýmiskonar leiðir til að hafa áhrif á verkjaupplifun sína og draga þannig úr áhrifum verkja á líðan sína.

Sérfræðiþekking

Gyða skrifaði einnig doktorsrannsókn sína um hvað greinir milli kvenna sem upplifa grindargliðnun á meðgöngu og þeirra sem fá ekki grindargliðnun á meðgöngu.  Rannsóknin sýndi sterka fylgni milli sálfélagslegra þátta og hvaða konur fá grindargliðnun.  Þannig má vinna með þessa þætti sem geta þá haft áhrif á líðan.

Valgerður Margrét Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur starfaði í 16 ár á verkjasviði Reykjalundar þar sem hún vann lengst af sem aðstoðarhjúkrunarstjóri, sinnti þar einstaklingsmeðferð, hópmeðferð og fræðslu. Hún þróaði efni og sinnti fræðslu fyrir verkja- og gigtarsvið er varðar neysluvenjur, lífsstílsfræðslu og vann að efni varðandi hugræna atferlismeðferð við verkjum.

Hrafnheiður Valdís Baldursdóttir sálfræðingur lauk verknámi sínu af verkjasviði Reykjalundar þar sem hún aðstoðaði við að leiða verkjahópa.  Þá hefur hún einnig setið Líf með langvarandi verkjum.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði

Þegar við verðum fyrir áföllum eða mjög erfiðum aðstæðum í æsku er stundum sagt að áföllin, viðbrögð okkar og lærdómur af þeim geti „frosið föst“ í heilanum á okkur. og þannig haldið áfram að hafa áhrif.  

Þannig getum við til dæmis lært að bestu viðbrögðin við óeðlilegum aðstæðum eru:

  • að láta lítið fara fyrir okkur
  • gera litlar kröfur og ekki segja okkar meiningu
  • eða hafa hátt
  • heimta, hóta eða álíka  

Þessi viðbrögð hjálpa okkur til að takast á við erfiðu aðstæðurnar þegar við erum lítil og oft á tíðum þarf að hafa fyrir því að breyta viðbrögðum okkar því við vöxum ekki upp úr þeim við það eitt að fara að heiman.    

Samskipti sem við lærðum geta unnið gegn okkur

Þegar við notum þessi gömlu óhjálplegu bjargráð í daglegu lífi eftir að við erum orðin fullorðin þá vinnur það oftast gegn okkur.

Það sem hjálpaði okkur til að aðlagast í erfiðum aðstæðum þegar við vorum lítil skapar okkur oft meiri vandræði þegar við erum fullorðin.  

Þau okkar sem læra að takast á við lífið með því að draga sig í hlé geta lent í því seinna meir að annað fólk hlustar ekki á okkur. Það valtar yfir okkur. Við kyngjum ýmiskonar vanlíðan og jafnvel springum öðru hvoru þegar við getum ekki meira.  

Ef við lærðum að hóta, vera árásargjörn og láta mikið fara fyrir okkur til að bregðast við aðstæðum þá er líklegt að við lendum síðar í erfiðum samskiptaárekstrum. Fólk tiplar á tánum í kringum okkur. Fólk jafnvel forðast okkur og á erfitt með að eiga hreinskipt samtöl við okkur af ótta við að við springum.  

Ef við lærðum að laumast, vera útsmogin og vinna óbeint gegn öðrum er líklegt að fólk eigi síðar meir erfitt með að treysta okkur og finnist það ekki vita hvar það hefur okkur.

Heilbrigð og óheilbrigð samskipti

Við getum sem fullorðnir einstaklingar átt erfitt með að setja fólki heilbrigð mörk. Við getum valtað yfir fólk eða kvartað yfir öðrum út á við án þess að segja við þá hvað við erum ósátt við.  

Þetta eru óheilbrigð samskiptamynstur sem einkennast af því að vera tilbaka, ögrandi eða óbeinn.  

Heilbrigð samskiptamynstur ganga hinsvegar út á að geta sagt sína skoðun, sett heilbrigð mörk, án þess að „brjóta á“ hinum aðilanum eða okkur sjálfum. Finna lausnir sem henta öllum og virða líðan og skoðanir annarra.

Óheilbrigðu samskiptamynstrin geta birst á ýmsan hátt í fjölskyldum.  

Mörk geta verið óheilbrigð, leyndarmál, baktal, hótanir og ekki tekist á við vandamálin.  

Meðvirkni getur verið áberandi og þegar á reynir í samskiptum fara fjölskyldumeðlimirnir í gömlu mynstrin sín og lítið sem ekkert leysist og hlutirnir verða jafnvel flóknari!  

Þegar ekki er hægt að ræða saman á uppbyggilegan hátt breytist yfirleitt lítið.  

Sumir eru í þessum óheilbrigðu samskiptamynstrum út lífið.  Aðrir læra af nýjum aðilum í lífinu, þroskast, átta sig á að breytinga er þörf.  Þeir leita sér aðstoðar til að læra árangursríkari aðferðir til að takast á við samskipti.  

EMDR og samskipti

Hægt er að taka EMDR úrvinnslu á minningar um hvernig erfið samskipti lærðust.  Við það breytast óhjálpleg viðhorf og við styrkjumst í kjölfarið. Þessi breyting kallar á nýjar aðferðir í samskiptum og þá er hægt að vinna með meðferðaraðilanum þínum að ákveðni.  

Í EMDR meðferð er einnig hægt að vinna með tilhugsun um samskipti við aðra.  Samskipti sem hafa fram að þessu valdið kvíða. Í úrvinnslunni minnkar kvíðinn, við finnum að við getum auðveldar átt þessi samskipti og við upplifum okkur sterkari en áður gagnvart þessum verkefnum.

Þegar búið er að tileinka sér heilbrigð samskipti er svo miklu auðveldara að takast á við það sem lífið hefur í för með sér!

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði

Greining á krabbameini getur verið áfall.  Flestir óttast það versta og upplifa greininguna jafnvel sem dauðadóm.  Landspítalinn býður upp á sálfræðimeðferð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra, en sumir kjósa að leita annað.  Í okkar hópi eru meðferðaraðilar sem hafa góða þekkingu á viðbrögðum og líðan sem getur fylgt krabbameinsgreiningu, meðferð og þegar meðferð lýkur.

EMDR meðferð getur gagnast á ýmsan hátt í tengslum við krabbamein

Til dæmis til að:

  • vinna úr áfallinu sem getur fylgt greiningunni
  • minnka kvíða fyrir niðurstöðum rannsókna
  • draga úr ótta við að greinast aftur
  • draga úr ótta við líkamleg einkenni sem geta fylgt öðrum veikindum
  • minnka ótta og kvíða eftir að krabbameinsmeðferð líkur
  • vinna úr þeim tilfinningum sem fylgdu veikindunum
  • bæta líðan og auka lífsgæði á ýmsum sviðum
  • hjálpa aðstandendum að vinna með líðan sem getur fylgt þegar ástvinur veikist af krabbameini

Við viljum benda á að krabbameinsgreindir og aðstandendur þeirra geta fengið niðurgreidda sálfræðiþjónustu á Landspítala háskólasjúkrahúsi hjá sálfræðingum.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði

Í pararáðgjöf er fundið út í hverju vandi parsins liggur.  Vandinn getur til dæmis verið í tengslum við:

  • skort á nánd
  • rifildi
  • framhjáhald
  • áhugaleysi
  • skiptingu á ábyrgð
  • peningamál
  • barnauppeldi
  • og fleira

Hvernig er unnið með vandann?

Unnið er með vandann út frá meðferðarnálguninni Emotionally Focused Couples Therapy (EFT).  Þessi nálgun hefur verið rannsökuð í meira en 30 ár.  Hún kemur mjög vel út í rannsóknum á árangri pararáðgjafar.  Í nálguninni er lögð áhersla á að:

  • bæta samskipti
  • draga úr rifrildum
  • auka nánd
  • auka skilning á líðan hins aðilans í sambandinu

Í pararáðgjöf má gera ráð fyrir heimaverkefnum sem parið vinnur að á milli viðtala.  Mikilvægt er að báðir aðilar vilji vinna með sambandið.

Strax á fyrstu vikum meðgöngu byrja margar konur að mynda tengsl við þetta nýja líf sem þær bera undir belti og fara að finna fyrir móðurtilfinningum. Ef kona missir síðan fóstrið eða barnið á meðgöngunni fylgja því oftast erfiðar tilfinningar. Konan syrgir framtíð, draum og von sem skyndilega slokknaði. Slíkur missir hefur áhrif á geðheilsuna og rannsóknir hafa sýnt að algengt er að fram komi aukin einkenni þunglyndis og kvíða mánuðina eftir missinn. Oftast minnka einkennin með tímanum og flestar konur ná að vinna úr sársaukanum eftir því sem frá líður.

Hvernig hefur reynslan áhrif

Þungun eftir slíka reynslu einkennist oft af kvíða og áhyggjum sérstaklega í byrjun meðgöngu. Einnig eiga margar konur erfitt þegar þær nálgast þann tímapunkt þegar þær misstu fóstrið/barnið. Þá rifjast upp fyrri reynsla og samhliða því kemur upp ótti við að missa aftur. Hverri skoðun hjá ljósmóður fylgir gjarnan kvíði og síðan léttir þegar staðfest er að allt virðist í lagi. Fljótlega fer þó kvíðinn að gera vart við sig aftur og eykst þar til eftir næstu skoðun og þannig er það hjá mörgum konum alla meðgönguna. Meðgangan getur því verið tilfinningalegur rússíbani.

Heilsutengdur kvíði

Sumar konur með sögu um missi upplifa mikinn heilsutengdan kvíða á meðgöngu þar sem athyglin beinist mjög að líkamlegum einkennum. Eðlileg líkamleg einkenni eru oft túlkuð sem vísbending um að eitthvað sé að. Við það eykst kvíðinn sem verður til þess að líkamlegu einkennin aukast gjarnan líka. Hegðunin breytist einnig og konur hætta jafnvel að þora að gera hluti sem þær gerðu áður eins og t.d. að ferðast eða fara í sund. Einnig er þekkt að fólk með heilsukvíða fer meira til lækna en gengur og gerist og leitar stöðugt staðfestingar á því að ekkert sé að líkamanum. Úr verður vítahringur sem getur valdið mikilli vanlíðan.

Eðlilegt er að það taki tíma að vinna sig í gegnum sorgina eftir missi á meðgöngu. Mikilvægt er að leita sér aðstoðar ef vanlíðan er viðvarandi og er farin að hafa hamlandi áhrif í daglegu lífi. Gott er að fylgjast með hvaða hugsanir fara í gegnum hugann þegar líðanin er slæm. Ef hugsanirnar eru stöðugt neikvæðar og niðurbrjótandi þarf að skoða málið. Sumar konur fara að dæma sig hart, upplifa sjálfsásakanir og finnst þær gallaðar sem konur og einstaklingar. Þetta getur komið hart niður á sjálfstraustinu. Ef slíkar hugsanir eru farnar að einkenna dagana er mikilvægt að leita sér aðstoðar.

Hér hefur einungis verið rætt um konuna og liðan hennar eftir missi en ekki má gleyma því að maki upplifir líka oft erfiðar tilfinningar og sorg. Mikið af framansögðu á einnig við um maka. Vanlíðan pars eftir missi getur reynt á sambandið og oft kemur upp togstreita þar sem fólk er ekki alltaf á sama stað tilfinningalega og hver syrgir á sinn hátt. Mikilvægt er að virða tilfinningar hins aðilans, sýna skilning og ræða saman um hlutina. Oft getur einnig hjálpað að leita til fagaðila og fá aðstoð við að vinna úr hlutunum.

Hjá EMDR stofunni starfa fagaðilar sem hafa góða þekkingu á erfiðum tilfinningum sem geta komið upp eftir missi á meðgöngu. Áfallameðferð getur nýst vel til að vinna með slíka reynslu.

Samantekt: Guðrún Soffía Gísladóttir, sálfræðingur