Grunnþjálfun í EMDR meðferð – Weekend 1 – fyrir fagfólk
29. apríl, 2022 @ 08:00 - 1. maí, 2022 @ 17:00
| ISK143.000EMDR Weekend 1 námskeið
með Roger M. Solomon, Ph.D
Grunnþjálfun í EMDR meðferð
Til að ljúka grunnþjálfun í EMDR meðferð þarf að sitja tvö tuttugu klukkustunda námskeið og ljúka 10 tímum af handleiðslu, samtals 50 tímar. Þjálfunin er skipulögð þannig að fyrst er Weekend 1 námskeið (20 tímar) og að því loknu þarf að sitja tvö skipti af 2,5 tíma hóphandleiðslu til að mega sitja síðara námskeiðið. Um 6-9 mánuðum síðar er Weekend 2 námskeiðið (einnig 20 tímar) og eftir það þarf að ljúka tveimur skiptum af 2,5 hóphandleiðslu. Þeir sem klára þessa grunnþjálfun fá viðurkenningarskjal um að henni sé lokið og mega kalla sig EMDR meðferðaraðila.
Næsta námskeið
Þann 29. apríl til 1. maí næstkomandi verður haldið fyrra námskeið af tveimur (Weekend 1) í grunnþjálfun í EMDR meðferð. Námskeiðið felst í fyrirlestrum, vídeóum með dæmum um notkun aðferðarinnar, sýnikennslu auk þess sem þátttakendur æfa sig í þriggja manna hópum í notkun aðferðarinnar undir handleiðslu kennarans og aðstoðarkennara. Á námskeiðinu fara um 10 tímar í kennslu og 10 tímar í verklegar æfingar. Kennt er eftir handbók EMDR Institute en ný útgáfa af henni er nýlega komin út. Allir þátttakendur fá handbókina á námskeiðinu og er hún innifalin í námskeiðsgjaldinu. Námskeiðið uppfyllir kröfur EMDR Europe og EMDR Institute um fyrra námskeið í grunnþjálfun í EMDR meðferð.
Hluti af því sem farið er yfir á Weekend 1 námskeiðinu:
- Rannsóknir á EMDR meðferð
- Á hvers konar vanda EMDR meðferð virkar
- Adaptive Information Processing módelið sem EMDR meðferð byggir á
- 8 fasar EMDR meðferðar
- 3 pronged protocol EMDR meðferðar
- Aðferðir til að taka sögu skjólstæðings og hverju þarf að huga að
- Beinar spurningar versus Floatback technique
- Undirbúningur undir úrvinnslu
- Hvenær skjólstæðingar eru tilbúnir í úrvinnslu
- Munurinn á state change og trait change í EMDR meðferð
- Notkun Safe/Calm place og annarra stöðugleikaæfinga
- Aðferðir til að halda skjólstæðingi innan þolmarka
- Vinna með fortíð, nútíð og framtíð og hvar skal byrja
- fl.
Að námskeiði loknu þarf 5 tíma hóphandleiðslu. Ljúka þarf handleiðslunni til að fá að sitja seinna námskeiðsins (Weekend 2 – sem verður auglýst síðar) og þarf einnig 5 tíma handleiðslu eftir það til að ljúka grunnþjálfun.
Um kennarann
Roger M. Solomon, Ph.D er sálfræðingur, EMDR Institute Senior Trainer og EMDR Europe Senior Trainer, og kennir á námskeiðinu. Hann var einn af fyrstu kennurunum sem Francine Shapiro þjálfaði í að kenna EMDR meðferð, og námskeiðin sem hann hefur kennt á eru óteljandi. Roger hefur komið reglulega til Íslands frá árinu 2011 og haldið EMDR grunnþjálfunarnámskeið sem um það bil 170 íslenskir meðferðaraðilar hafa setið. Roger er eins konar sendiherra EMDR meðferðar og ferðast um heiminn og heldur byrjendanámskeið sem og námskeið fyrir lengra komna, oft með ýmsum öðrum stjörnum innan EMDR fræðanna. Allt sem hann lærir af öðrum tekur hann með sér og miðlar á námskeiðinu Art of EMDR (sjá neðar) sem hægt er að taka aftur og aftur til að læra meira og vinna með sig.
Roger var náinn samstarfsmaður Francine Shapiro sem var upphafskona EMDR meðferðar. Hann er oftast með erindi á EMDRIA og EMDR Europe árlegu ráðstefnunum. Roger er sjálfstætt starfandi, rekur litla meðferðarstofu en er mest í kennslu hér og þar um heiminn. Hann starfar einnig fyrir U.S. Senate þar sem hann kemur ca 1x í mánuði og veitir EMDR meðferð fyrir skjólstæðinga annarra meðferðaraðila innan Employee Assistance Program þar og þurfa hans sérfræðiþekkingu. Þá var hann lengi lögreglusálfræðingur og hefur verið með meðferð og þjálfun hjá FBI leyniþjónustunni, U.S. State Department, Diplomatic Security, Bureau of Alcohol, Tobacco, and Firemarms, U.S. Department of Justice og fjölda lögregluembætta. Hans sérhæfing er meðferð flókinna áfalla, Theory of Structural Dissociation og samþætting hennar við EMDR meðferð, flókin sorg, og ýmiskonar hópinngrip fyrir m.a. lögreglumenn og aðrar starfstéttir sem hafa upplifað starfstengd áföll.
Roger kennir einnig á Art of EMDR námskeiðunum (www.artofemdr.com) út um allan heim, en 4 slík námskeið hafa verið haldin á Íslandi, þar sem EMDR meðferðaraðilar vinna í pörum sem meðferðaraðili og skjólstæðingur, læra það nýjasta af Roger, fínpússa færni sína í EMDR meðferð undir handleiðslu auk þess sem þeir geta unnið með sig. Þessi námskeið bjóða stöðugt upp á nýja þekkingu og færni, og því hægt að endurtaka þau að vild.
Hér má lesa meira um Roger: www.rogermsolomon.com
Um aðstoðarkennarana
Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði er annar aðstoðarkennaranna á námskeiðinu. Gyða lærði EMDR meðferð 2004 og 2005 í Bandaríkjunum, fékk hæfnivottun EMDRIA sem EMDR meðferðaraðili árið 2008, og sem handleiðari árið 2013 og varð EMDR Institute aðstoðarkennari sama ár. Hún fékk hæfnivottun EMDR Europe sem EMDR meðferðaraðili og handleiðari árið 2020. Gyða hefur sótt fjölda námskeiða í tengslum við EMDR meðferð, áföll, flókin áföll, hugrofsraskanir og aðrar afleiðingar áfalla. Hún hefur handleitt langflesta EMDR meðferðaraðila á Íslandi og hefur verið formaður félagsins EMDR á Íslandi frá 2018. Gyða hefur flutt inn Roger Solomon á fjölmörg EMDR námskeið síðustu 11 ár.
Gyða hefur verið sjálfstætt starfandi á stofu frá 2005, og vinnur eingöngu með fullorðna einstaklinga í meðferð. Hennar sérsvið eru meðal annars EMDR áfallameðferð, flóknar afleiðingar áfalla, hugrofsraskanir, partavinna, tilfinningahliðar ófrjósemi, meðgöngukvillar, fósturlát, andvana fæðingar, langvarandi verkir og handleiðsla EMDR meðferðaraðila. Hún hefur sótt handleiðslu til ýmissa EMDR sérfræðinga í gegnum tíðina og þá lengst hjá Kathleen Martin, MSW sem hefur reglulega komið til Íslands með námskeið.
Hér má lesa meira um Gyðu https://emdrstofan.is/gyda-emdr/
Margrét Blöndal, B.Sc. hjúkrunarfræðingur og með nám í klínískri geðhjúkrun á meistarastigi, er hinn aðstoðarkennarinn á námskeiðinu. Margrét lærði EMDR meðferð árið 2006 og fékk hæfnivottun EMDRIA sem EMDR meðferðaraðili árið 2013, og hæfnivottun EMDRIA sem EMDR handleiðari árið 2019. Hún varð EMDR Institute aðstoðarkennari 2019, og fékk hæfnivottun EMDR Europe sem EMDR meðferðaraðili og handleiðari árið 2020. Margrét hefur sótt ótal námskeið í tengslum við áföll, EMDR meðferð, flókin áföll og afleiðingar þeirra, hugrofsraskanir og fleira. Hún hefur sótt sér EMDR handleiðslu til ýmissa EMDR sérfræðinga og þá lengst hjá Kathleen Martin, MSW. Margrét hefur verið í stjórn félagsins EMDR á Íslandi frá 2018.
Margrét starfaði á Landspítalanum í yfir 30 ár, meðal annars á Áfallamiðstöð og neyðarmóttöku vegna nauðgunar, BUGL og bráðainnlagnardeild geðsviðs. Hún var í stuðnings- og ráðgjafarteymi fyrir starfsfólk Landspítala. Þá var hún í samráðshópi áfallahjálpar í Samhæfingarstöð almannavarna og vann að heildarskipulagi almannavarna um áfallahjálp á neyðartímum. Margrét er stundakennari við Háskóla Íslands. Hún hefur haldið um árabil fyrirlestra og námskeið um áfallahjálp, afleiðingar áfalla og kulnunar, o.fl.
Margrét hefur verið sjálfstætt starfandi meðferðaraðili á stofu síðan 2011 og eru hennar helstu viðfangesefni áföll og áfallastreita, afleiðingar áfalla og úrvinnsla þeirra, hugrof, tengslavandi og handleiðsla EMDR meðferðaraðila. Þá hefur hún unnið mikið með einstaklinga sem eru með áfallalíðan eftir tengslarof tengdu spítalavist í æsku og inngrip tengdum spítalavistun. Margrét vinnur mest með fullorðna einstaklinga en einnig afmörkuð áföll hjá börnum.
Hér má lesa meira um Margréti: https://emdrstofan.is/margret/
Hverjir mega sitja námskeiðið
Félagið EMDR á Íslandi setur reglur um hverjir mega sitja námskeiðið byggðar á reglum EMDR Europe og aðildarlanda EE og er farið eftir þeim varðandi hvaða umsóknir um þátttöku eru samþykktar.
EMDR meðferð er viðbótarverkfæri í verkfærakistu reynds meðferðaraðila. Gert er ráð fyrir því að þátttakendur séu nú þegar með töluverða reynslu af sálrænni meðferð þar sem að EMDR meðferð gerir ráð fyrir yfirgripsmikilli þekkingu á að meðhöndla ýmiskonar klínískan vanda, sem síðan er byggt á á námskeiðinu. Þátttakendur þurfa því að uppfylla allar kröfur hér fyrir neðan til að mega sitja námskeiðið og þurfa að senda inn viðeigandi gögn með umsókn um þátttöku:
- Þátttakendur þurfa að vera löggiltir heilbrigðisstarfsmenn á geðheilbrigðissviði og heyra undir Landlækni (senda með afrit af löggildingu).
- Þátttakendur þurfa að vera í fagfélagi sem hefur skilgreindar siðareglur (senda með staðfestingu frá fagfélagi).
- Þátttakendur þurfa að hafa lokið a.m.k. meistaragráðu á geðheilbrigðissviði (senda með afrit af prófskírteini).
- Nám á meistarastigi þarf að hafa innihaldið námskeið/þjálfun í geðgreiningum (senda með staðfestingu á þjálfun/námskeiði sem hluta af námi á meistarastigi í geðgreiningum)
- Nám á meistarastigi þarf að hafa innihaldið námskeið/þjálfun í viðurkenndri meðferðarnálgun í sálrænni meðferð (senda með staðfestingu á þjálfun/námskeiði sem hlusta af námi á meistarstigi í viðurkenndri meðferðarnálgun í sálrænni meðferð (t.d. listi yfir lokin námskeið og afrit af námskeiðslýsingu).
- Þátttakendur þurfa að hafa að lágmarki tveggja ára starfsreynslu við sálræna meðferð að námi loknu (senda staðfestingu á að lágmarki tveggja ára starfsreynslu við sálræna meðferð að námi loknu).
- Þátttakendur þurfa að hafa sótt að minnsta kosti 20 handleiðslutíma á veitta sálræna meðferð að námi loknu, þar af þurfa að minnsta kosti 10 að vera einstaklingshandleiðsla (senda með vottorð sem staðfestir/a ofangreint).
Ef vafi leikur á hvort umsækjandi uppfylli ofangreindar kröfur má óska eftir umsögn stjórnar EMDR á Íslandi. Umsögn kostar 10.000 kr. Ath næsti fundur stjórnar EMDR á Íslandi er 26. apríl, þremur dögum fyrir námskeiðið.
Undurbúningur fyrir námskeiðið
- Þátttakendur á námskeiðinu þurfa að lesa bókina Eye Movement Desensitization and Reprocessing: Basic Principles, Protocols and Procedures, 3. útgáfa eftir Francine Shapiro, Ph.D. Bókin er ekki til á Íslandi en hægt að panta af Amazon. Ath ekki þarf að kunna allt efnið en ágætt að lesa í bókinni til að fá upplýsingar um hvernig EMDR virkar og hvað felst í meðferðinni meðal annars.
- Þátttakendur æfa sig hver á öðrum á námskeiðinu þannig að hver og einn þarf að vinna með eitthvað efni sem truflar eða veldur vanlíðan. Það er því ágætt að velta fyrir sér hvað þú vilt vinna með. Ef spurningar um viðeigandi efni vakna má spyrja kennara eða aðstoðarkennara á námskeiðinu, eða senda fyrirspurn á [email protected]
Þegar nöfn þátttakenda eru komin á hreint, verður sendur út póstur á þá með lista yfir nöfn þátttakenda og þeim boðið að láta vita ef það eru einhverjir í listanum sem þeir geta ekki unnið með (þarf ekki að tilgreina ástæður) og tekið verður tillit til þess þegar raðað verður í hópa fyrir námskeiðið.
Staðsetning
Staðsetning verður tilkynnt þegar nær dregur.
Tímasetning
Föstudagur 29. apríl 2022 8:30 til 17
Laugardagur 30. apríl 2022 8:30 til 17
Sunnudagur 1. maí 2022 8:30 til 16
Ath – Roger á það til að breyta tímasetningum lítillega. Hádegismatur er ekki endilega alltaf á sama tíma heldur ræðst oft af því hvar hann er staddur í fyrirlestrinum, en byrjar yfirleitt ca 12 til 12:30 og er yfirleitt í klst. Kaffihlé að morgni er yfirleitt í kringum 10:15 til 10:30 en ræðst líka eitthvað af því hvar hann er staddur í fyrirlestrinum. Kaffihlé eftir hádegi er yfirleitt minna skipulagt heldur ræðst af því hvar hver hópur er staddur í verklegum æfingum, og er þá tekið hlé á milli róteringa innan hópsins, s.s. ekki eitt hlé fyrir alla.
Verð og greiðslufyrirkomulag
Verðið fyrir fyrri hlutann (Weekend 1) er 143.000 kr. Kaffi, te, og meðlæti fyrir og eftir hádegi er innifalið í verðinu.
Handleiðsla eftir námskeiðið er ekki innifalin í verðinu. Tímasetningar á handleiðsluhópum og hver sér um handleiðsluna verða auglýstar að námskeiði loknu. Verð á 2,5 klst handleiðsluhóp fyrir hvern þátttakanda er 15.000 kr hjá Gyðu Eyjólfsdóttur og/eða Margréti Blöndal.
Eftir að umsækjandi hefur sent inn umsókn ásamt öllum tilskyldum gögnum fær hann sendan reikning í netbanka. Greiða þarf reikninginn í síðasta lagi 15. apríl. Athugið að ef stofnun eða vinnustaður er greiðandi að námskeiðsgjaldi umsækjanda þarf að vera öruggt að búið sé að greiða fyrir 15. apríl, annars þarf umsækjandi að ganga sjálfur frá greiðslunni.
Ef hætt er við þátttöku eftir 15. apríl fæst helmingur námskeiðsgjalds endurgreiddur. Athugið að handbókin er eingöngu fyrir þá sem sitja námskeiðið og fæst því ekki afhent þeim sem hætta við.
Athugið dagana 2. og 3. maí mun Roger bjóða upp á námskeiðið „Attachment to the perpetrator“ og geta þátttakendur á Weekend 1 einnig skráð sig á það námskeið ef þeir vilja. Roger býður 10% afslátt af þessu námskeiði til þeirra sem sitja Weekend 1 dagana á undan.
Þátttökustaðfesting og viðurkenningarskjal:
Veitt er staðfesting á þátttöku (20 tímar) að námskeiði loknu. Viðurkenningarskjal frá EMDR Europe um að þátttakandi hafi lokið EMDR Basic training fæst að loknum báðum námskeiðum og 10 tíma handleiðslu.
Það þarf að skrá sig sérstaklega á seinna námskeiðið og greiða sérstaklega fyrir það námskeið. Það er ekki komin dagsetning hvenær það verður haldið. Algengt er að það líði 6-9 mánuðir á milli námskeiða.
Skráningareyðublað er á næstu blaðsíðu. Sendið útfyllt skráningareyðublað og umbeðin fylgiskjöl á [email protected]
Skráning á EMDR Weekend 1 námskeið
Nafn:
Kennitala:
Heimilisfang, póstnúmer og sveitarfélag:
Gsm sími:
Netfang:
Nafn og símanúmer náins aðstandanda (ef eitthvað kemur upp á í verklega hluta námskeiðsins):
Ef greiðandi er annar en umsækjandi:
Kennitala greiðanda:
Netfang sem senda á reikninginn á:
Fylgigögn sem þurfa að fylgja umsókn:
[ ] Afrit af löggildingu sem meðferðaraðili á geðheilbrigðissviði
[ ] Staðfesting á að tilheyra fagfélagi með skilgreinar siðareglur
[ ] Afrit af prófskírteini – a.m.k. meistaragráða á geðheilbrigðissviði
[ ] Staðfesting á þjálfun/námskeiði sem hluta af námi á meistarastigi í
geðgreiningum (t.d. listi yfir lokin námskeið og afrit af námskeiðslýsingu)
[ ] Staðfesting á þjálfun/námskeiði sem hluta af námi á meistarastigi í viðurkenndri
meðferðarnálgun í sálrænni meðferð (t.d. listi yfir lokin námskeið og afrit af
námskeiðslýsingu).
[ ] Staðfesting á að lágmarki tveggja ára starfsreynslu við sálræna meðferð að námi loknu.
[ ] Staðfesting á að minnsta kosti 20 handleiðslutímum á veitta sálræna meðferð að
námi loknu, þar af þurfa að minnsta kosti 10 að vera
einstaklingshandleiðsla.