Meðferðaraðilar EMDR stofunnar eru fagaðilar

Hjá EMDR stofunni starfa fagaðilar á geðheilbrigðissviði. Þeir hafa meðal annars sérhæft sig í EMDR áfallameðferð, auk annarra meðferða. 

Allir meðferðaraðilarnir hafa verið í EMDR handleiðslu hjá viðurkenndum EMDR handleiðurum.

Meðferðaraðilar eru einnig með ýmiss konar viðbótarmenntun, meðal annars í áfallafræðum og meðferð einfaldra og flókinna áfalla.

Auk EMDR meðferðar er boðið upp á fjölda annarra meðferða. 

  • Fræðslufyrirlestur Margrétar Blöndal um áfallastreitu og EMDR sem streymt var á Facebook
For privacy reasons Facebook needs your permission to be loaded.
I Accept

Um meðferðirnar

Í EMDR er unnið með minningar sem valda vanlíðan.

Byrjað er á því að fara yfir hvað það er þú vilt vinna með. 

Meðferðaraðilinn spyr þig spurninga um áfallasögu þína.  Hann spyr hvaða leiðir þú kannt til að hafa jákvæð áhrif á líðan þína.  

Ef þörf krefur eru kenndar leiðir til að bæta líðan áður en áfallavinna hefst. 

Unnið með minningar í EMDR meðferð

Þegar búið er að ákveða hvaða minningu skal vinna með, er spurt um ýmislegt sem tengist minningunni eins og til dæmis:

  • hvert versta augnablikið er í minningunni
  • hvaða neikvæða viðhorf varð til eða styrktist í atburðinum
  • hvaða jákvæða viðhorf þú værir frekar til í að hafa
  • hver tilfinningaleg áhrif minningarinnar eru
  • hversu mikið hún truflar þig 
  • hvaða líkamlegu óþægindi koma fram við að hugsa um minninguna 

Þegar þessi svör eru komin er skjólstæðingurinn beðinn um að hugsa um svörin sín á ákveðinn hátt.  Því næst er beitt áreiti í formi augnhreyfinga, hljóðáreitis eða léttu “tappi” á hnén eða hendur. 

EMDR meðferðin getur reynt á þegar/ef erfiðar tilfinningar koma upp í úrvinnslu en flestir finna mun á líðan sinni eftir einn tíma.

Ef þú hefur eingöngu lent í einu áfalli, tekur meðferðin yfirleitt um 1-3 tíma. 

Flóknari EMDR meðferð

Þegar um flóknari áföll er að ræða, eins og til dæmis sí-endurtekin áföll eins og til dæmis:

  • heimilisofbeldi
  • erfiðan alkahólisma á æskuheimili
  • ítrekaða misnotkun eða annað

þá tekur meðferðin lengri tíma en flestir finna fljótt mun á líðan sinni til hins betra.

Skjólstæðingar lýsa oft miklum létti í kjölfari úrvinnslu og vellíðan í líkamanum. 

Þá tala margir um sjálfstyrkingu þar sem neikvæð viðhorf til sín, annarra eða lífsins breytast í hjálplegri og uppbyggileg viðhorf sem styrkja einstaklinginn.

Ef áföllin eru mjög flókin getur þurft lengri undirbúningstíma.  Allir meðferðaraðilar EMDR stofunnar með sérþekkingu á þeim aðferðum sem stuðst er við.

Hægt er að lesa um EMDR meðferð í bókinni Getting Past Your Past eftir Francine Shapiro, á vefsíðunum www.emdr.is www.emdr.com og www.emdria.org

Hér er stutt myndband um EMDR meðferð.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði.

Í stuttu máli er partameðferðin nýtt til að auka samkennd, draga úr hræðslu og forðun gagnvart erfiðri líðan og erfiðum minningum.

Hún er nýtt til að auka þolmörk, auka skilning á áhrifum fortíðar á líðan í dag og draga úr hugrofseinkennum ef þau eru til staðar.  

Hvenær er aðferðin hjálpleg?

Þessi aðferð er mjög hjálpleg þegar unnið er með flókin áföll. Meðferðin getur gagnast í öðrum tegundum sálfræðimeðferða.  Hægt er að sjá í henni tengingu við hugræna atferlismeðferð, gestalt meðferð auk annarra meðferðanálgana.

Þær tvær nálganir í partameðferð sem helst er stuðst við hjá EMDR stofunni eru út frá Theory of Structural Dissociation annars vegar og hins vegar út frá Internal Family Systems Therapy.

Meðferðaraðilinn þinn getur ákveðið með þér hvor aðferðin hentar þér betur.

Nánar um partameðferð (Ego state therapy, EST, Parts Work)

Í sálfræðimeðferð getur verið mjög hjálplegt að flétta inn svokallaða partameðferð.  Þá er unnið er með mismunandi hliðar af manni sjálfum. 

Sumir upplifa að skilja ekki eigin viðbrögð, hugsanir og tilfinningar.  Þeir tala um að finnast jafnvel eins og einhver „annar“ hluti af þeim hafi tekið yfir og stjórnað hegðun þeirra. 

Sumir upplifa að finnast þeir bregðast við eins og þeir séu „yngri“.  Til dæmis að upplifa mjög mikið óöryggi i ástarsambandi og óttast mjög að verða hafnað. Þeir kannski ríghalda í sambandið þrátt fyrir að það sé jafnvel ekki heilbrigt. Í svona tilfellum getur partavinna bætt heilmiklu við hefðbundna meðferð.  Þá er skoðuð innri togstreita milli „parta“ eða hliðar af manni sjálfum.  

Unnið með samkennd í partameðferð

Unnið er að samkennd milli parta, auknum skilningi og lausn vanda fyrir skjólstæðinginn sem hentar lífi hans til framtíðar.

Þegar flókin áföll eru til staðar má segja að heilinn nái ekki að samþætta þá upplifun sem einstaklingurinn varð fyrir, eða lærdómnum af þeirri reynslu sem hann upplifði.  Það má segja að hluti heilans frjósi fastur í gömlu mynstri . Þegar eitthvað kveikir á þeim hluta heilans þá koma fram gömul viðbrögð sem passa jafnvel ekki einstaklingnum eins og hann er í dag. 

Partavinnan

Í partavinnu má segja að við séum að tala við þennan hluta eða þessa hluta sem hafa frosið fastir.  Hjálpa þeim að átta sig á að upplýsingarnar sem þeir geyma hafi frosið fastar og í dag sé annar raunveruleiki. 

Þetta er meðal annars gert í svokallaðri fundarherbergisvinnu þar sem við sjáum fyrir okkur þessa parta af okkur. Við eigum samræður við þá, æfum samkennd í þeirra garð og gagnvart hlutverkum þeirra, aukum þol okkar fyrir þeim og því sem þeir geyma. Í kjölfarið er svo farið í áfallameðferð.

Þessi vinna skilar oft hraðri breytingu í líðan. Skjólstæðingar tengja fljótt við þessa nálgun. Sumir segja jafnvel að þeim finnst í fyrsta sinn einhver skilja hver þeirra innri upplifun hefur verið.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) er vel rannsökuð meðferðarnálgun sem er árangursrík til að meðhöndla
ýmiskonar vanda, til dæmis:

  • kvíða
  • þunglyndi
  • fælni
  • svefnvanda
  • langvarandi verki
  • og fleira

Áhersla í Hugrænni atferlismeðferð

Í HAM er lögð áhersla á að:

  • Auka ánægjulega virkni

    • Þú getur skoðað með meðferðaraðilanum þínum hvaða áhrif virkni hefur álíðan þína og lært að auka vellíðan og draga úr vanlíðan.
  • Breyta óhjálplegu hugsanamynstri sem hefur stuðlað að vandanum

    • Þú færir svokallaða hugsanaskrá þar sem þú sérð hvaða hugsanir koma fram í tilteknum aðstæðum og hvaða tilfinningar koma með
      þessum hugsunum. Þú lærir að þekkja hugsanaskekkjur sem viðhalda vanlíðan og að breyta þeim.
  • Skoða viðhorf þín – svokölluð kjarnaviðhorf og lífsreglur

    • Kjarnaviðhorf endurspegla viðhorf þín í eigin garð, til annarra og til lífsins almennt. Þau eru byggð á því sem við höfum upplifað og lært í
      lífinu og ákvarða hverju við tökum eftir í umhverfi okkar og hvernig við túlkum það sem gerist. Þessi viðhorf eru almennt ómeðvituð og við setjum ekki spurningarmerki við sannleiksgildi þeirra. Lífsreglur okkar mótast svo út frá þessum kjaranviðhorfum. Þær byggjast á hvernig okkur finnst að við
      og aðrir eigum að hegða okkur. Kjarnaviðhorf og lífsreglur hafa mikið með vanda okkar að gera og hjálpa til við að viðhalda vandanum.
  • Breyta hegðun sem hefur stuðlað að og viðhaldið vandanum

    • Með meðferðaraðilanum þínum skoðar þú hvernig hegðun þín hefur spilað inn í vandann og lærir að gera svokallaðar atferlistilraunir sem miðast að því að prófa nýja hjálplegri hegðun sem dregur úr vanlíðan. Stundum eru atferlistilraunirnar settar upp í svokallað stigveldi út frá erfiðleikastigi út frá þínu eigin mati. Þannig er byrjað á auðveldari atriðum áður en erfiðari eru tekin fyrir.
  • Heimavinnu milli tíma sem tekur á ofangreindu

Hugræn atferlismeðferð leggur fyrst og fremst áherslu á líðan þína á líðandi stundu og kafar ekki svo mikið í fortíðina. Ef þú vilt skoða áhrif fortíðarreynslu á líðan þína í dag getur EMDR meðferð hentað betur, eða blanda af EMDR meðferð og HAM.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði.

Díalektísk atferlismeðferð (DAM) /  Dialectical Behavior Therapy (DBT) er meðferð sem hefur reynst vel við:

  • lyndisröskunum
  • áfallastreituröskun
  • fíkn
  • sveiflum í líðan
  • sjálfsvígshugsunum
  • sjálfskaða
  • persónuleikaröskunum
  • og fleiru

Hvernig hjálpar DAM

DAM hjálpar til að kenna þátttakendum að minnka sveiflur í líðan með því að þekkja kveikjur á slíkar sveiflur. 

Þáttakendur læra hvaða bjargráð henta í slíkum tilfellum. Þannig er hægt að læra hvernig skal takast á við hugsanir, tilfinningar og hegðanir til að reyna að koma í veg fyrir óæskileg viðbrögð.

DAM meðferð gerir ráð fyrir því að allir séu að gera sitt besta en skorti leiðir til að ná árangri.

Í meðferðinni er blandað saman aðferðum úr hugrænni atferlismeðferð til að draga úr sveiflum, auka þol fyrir vanlíðan, aðferðum núvitundar og ACT.

DAM meðferð er oft beitt sem hópmeðferð en einnig er hægt að nýta hana í einstaklingsmeðferð.  

Það er í skoðun að bjóða upp á DAM hópmeðferð á EMDR stofunni.

Hægt er að óska eftir DAM einstaklingsmeðferð hjá EMDR stofunni.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði.

ACT er meðferð byggir meðal annars á núvitund og lífsgildum.  

Markmiðið er að:

  • þú samþykkir að erfiðleikar eru hluti af lífinu
  • vera í núvitund
  • hætta að forðast vanlíðan
  • vinna að breytingum 
  • skoða hvað þú getur gert þegar þú getur ekki haldið þig við markmið þín

Þú lærir að samþykkja eða gangast við stöðu mála og vera í „núinu“.

Þannig er markmiðið ekki að losna við óþægilegar tilfinningar eða upplifanir heldur frekar gangast við þeim og gera ráð fyrir því að erfiðleikar séu hluti af lífinu.

Þannig er lært að vera opin fyrir óþægilegum tilfinningum, hugsunum og líkamsupplifunum, án þess að reyna að forðast þær.

Hvernig er ACT nálgun

Meðal þess sem felst í ACT er að þú:

  • leyfir hugsunum og tilfinningum þínum „að vera“ án þess að finnast þú þurfa að gera eitthvað í málinu
  • tekur eftir veikleikum þínum og einnig styrkleikum
  • gefur þér leyfi til að vera ekki góð(ur) í öllu
  • ert meðvituð(aður) um þá erfiðleika sem þú stendur frammi fyrir í lífinu án þess að reyna að forðast þá eða flýja
  • ert meðvituð(aður) um að þú getur haft stjórn á viðbrögðum þínum, hugsunum og tilfinningum
  • skoðar líkamlega upplifun þína
  • fylgist með hvernig þú talar við þig á sama tíma og þú upplifir tilfinningar
  • skoðar túlkanir þínar á því sem þú ert að upplifa.  Eru þær byggðar á raunveruleikanum?
  • tekur á neikvæðu sjálfstali og svarar því með einhverju raunhæfu

og svo endurmetur þú líðan þína.

Valið er þitt

  • Þú velur hvert þú vilt stefna út frá hvað þér finnst mikilvægt í lífinu.
  • Þú lifir lífinu í samræmi við það sem þér finnst skipta máli.
  • Þú ákveður að gera eitthvað í málinu, breyta og fylgja breytingum eftir.

Þú getur óskað eftir ACT meðferð hjá EMDR stofunni.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði.

Núvitund felst í því að beina athyglinni að því sem við erum að upplifa í  augnablikinu sem er að líða og vera þannig í „núinu“.

Við tökum eftir hugsunum okkar, tilfinningum, líkamsupplifun og umhverfi,  án þess að dæma heldur með því að samþykkja upplifunina eins og hún er.

Núvitund byggir á gömlum hefðum

Núvitund er byggð á ævafornum hefðum úr Búddisma. Hún hefur þróast í gegnum tíðina.  

Rannsóknir sýna að hún er góð í að draga úr einkennum þunglyndis, streitu og kvíða.

Hún er hjálpleg varðandi langvarandi verki, átraskanir, og fleira.  

Núvitund er hægt að flétta saman við aðrar sálfræðimeðferðir.

Hjá EMDR stofunni er meðal annars boðið upp á námskeið í núvitund.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði.

Í samkenndarnálgun er þér kennt að þjálfa upp innri hlýju, öryggi og umhyggjusemi.

Þér er kennd samkennd í eigin garð og gagnvart öðrum. Þú lærir að þú ert ekki ein(n) um að gera mistök, verða á, eða ganga í gegnum erfiðleika.

Við upplifum öll einhverja þjáningu. Í samkennd er líka lögð áhersla á núvitund – að vera meðvituð um upplifun okkar án þess að dæma.

Hvernig hjálpar samkenndarnálgun

Þessi nálgun hjálpar til við að breyta óhjálplegum mynstrum í hugsun og tilfinningum í tengslum við:

  • kvíða
  • reiði
  • sjálfsgagnrýni
  • skömm
  • og fleira

Þannig byggist upp betra sjálfsmat og sterkari sjálfsmynd.

Rannsóknir sýna að samkennd veitir meiri gleði og bjartsýni, og eykur hvatningu.

Þá eru þeir sem skora yfir meðallagi á mælingum á samkennd ólíklegri til að upplifa innri togstreitu eins og samviskubit. Jafnframt mælast þeir lægri á streitu, kvíða og depurð.

Hjá EMDR stofunni eru meðferðaraðilar sem hafa mikla reynslu af samkenndarvinnu.

Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði.

SSP meðferð hefur bein áhrif á taugakerfið og þar með innri viðbrögð og líðan.

Um er að ræða heyrnar/hlustunar inngrip hannað til að draga úr streitu og hljóðnæmni og efla félagsleg tengsl og seiglu. Hlustunin í heild er alls 5 klst. / 300 mín. Algengt er að meðferðin skiptist niður á 10 meðferðartíma þar sem hlustað er í 30 mín. í senn.

Með því að róa ástand taugakerfis og tilfinninga opnast dyr fyrir betri líðan og samskipti og árangursríkari meðferð.

SSP er hannað af Dr. Stephen Porges en hann er höfundur svokallaðrar Polyvagal kenningar. Polyvagal kenningin varpar nýju ljósi á starfsemi ósjálfráða taugakerfisins og sér í lagi 10.heilataugarinnar, Vagus taugarinnar sem á íslensku kallast flökkutaug.

SSP meðferðin byggir á hátt í fjögurra áratuga rannsóknum á samspili milli ósjálfráða taugakerfisins og félags- og tilfinningalegra ferla (social-emotional processes).

Rannsóknir á SSP sýna marktækan árangur á eftirfarandi sviðum:

  • Félags- og tilfinningavandi
  • Viðkvæmni gagnvart hljóðum (auditory sensitivities)
  • Kvíði og áfallatengdar áskoranir
  • Einbeitingarvandi
  • Streituþættir sem hafa áhrif á félagsleg tengsl

Hvernig virkar meðferðin?

SSP notar heyrnarkerfið (auditory system) sem leið að flökkutauginni og þar með ósjálfráða taugakerfinu sem stýrir að miklu leyti lífeðlisfræðilegu ástandi okkar. Þegar það ástand er í góðu jafnvægi er hægt að ná betri árangri í meðferð.

Meðferðin felur í sér að hlusta á tónlist sem hefur verið sérstaklega meðhöndluð til að endurstilla taugakerfið þannig að hægt sé að efla tilfinningu fyrir öryggi og hæfni til að vera í samskiptum. Hún gefur möguleika á að skynja og túlka betur talað mál og tilfinningatjáninguna sem það felur í sér.

Safe/öryggis hlutinn snýst um umhverfi, aðstæður og líðan þegar hlustað er – Sound/hljóð hlutinn er hlustun á tónlist sem hefur verið sérstaklega stillt inn á ákveðið tíðnisvið. Mikilvægt er að hlustunin eigi sér stað í stýrðu, öruggu umhverfi með meðferðaraðila.

Með því að þjálfa heyrn kerfisbundið eins og gert er með SSP verður til ný grunnstaða í taugakerfinu. Sú staða styður við að upplifa öryggi og hefur einnig áhrif á aðra mikilvæga heilastarfsemi.

Þessi nýja grunnstaða styður við hugræna starfsemi og gerir sálræna meðferð þannig árangursríkari. Ef þú upplifir öryggi og ert í jafnvægi er auðveldara að takast á við óþægileg mál og nálgast tilfinningar sem þú hefur hingað til þurft að forðast. Þetta er sérstaklega hjálplegt fyrir einstaklinga í áfallameðferð.

Tónlistin þjálfar heyrnarkerfið með því að fókusera á tíðnisvið (frequency envelope) mannsraddarinnar. Eftir því sem einstaklingurinn lærir að vinna úr tíðni talaðs máls, batnar starfsemi í tveimur heilataugum sem eru mikilvægar fyrir félagslega hegðun. 7.heilataugin – andlitstaugin – hjálpar einstaklingnum að einblína á mannsröddina og aðgreinir frá annarri tíðni. 10.heilataugin – flökkutaugin – styður við sjálfsefjun og jafnvægisstillingu ósjálfráða taugakerfisins.

Eftir meðferðina eiga einstaklingar betra með að einbeita sér í verkefnum daglegs lífs og upplifa rólegra innra ástand, bæði lífeðlisfræðilega og tilfinningalega. Rannsóknir benda til að færni eins og athygli, tilfinningastjórn og félagsleg samskipti eflist.

SSP hefur áhrif á ómeðvitaða taugaskynjun – neuroception. Taugakerfið er stöðugt að vinna og meta aðstæður. Það fylgist með öllum innri og ytri merkjum til að komast að því hversu örugg staðan er. Niðurstaða þessa mats ákvarðar meðal annars:

  • Hvort þú upplifir að þú sért örugg/öruggur og að þú tilheyrir í samböndum
  • Hvort þú upplifir samskipti við aðra ánægjuleg eða íþyngjandi
  • Hvort þú getur verið afslöppuð/afslappaður eða stressuð/stressaður

SSP hefur reynst sérstaklega gagnlegt fyrir einstaklinga með:

  • Takmarkaða tilfinningastjórn
  • Félags- og tilfinningalega erfiðleika
  • Viðkvæmni fyrir hljóðum
  • Viðvarandi innri óróleika, ótta og ofsakvíða
  • Einbeitingarleysi
  • Fíknivanda
  • Afleiðingar bráðra áfalla, flókinnar áfallastreitu og tengslaáfalla

Notendur hafa lýst eftirfarandi áhrifum:

  • Geta til að slaka betur á
  • Dýpri svefn og auðveldara að muna drauma
  • Minni þörf fyrir að aftengja (dissociate)
  • Ótti og almennur kvíði minnka
  • Auðveldara að halda ró í krefjandi aðstæðum
  • Fljótari að jafna sig eftir tilfinningalegt uppnám
  • Aukin geta til að þola óþægilega skynjun og tilfinningar
  • Auðveldara að fylgja samræðum þar sem hávaði er til staðar (t.d. á veitingastöðum)
  • Almennt auðveldara að vera til

Áhugavert efni á youtube um SSP

Fjöldi meðferða er mikill og hægt er að biðja um aðrar meðferðir en þær sem eru hér að ofan.

Aðrar meðferðir eru til dæmis:

  • brainspotting
  • djúpslökun
  • dáleiðsla
  • almenn samtalsmeðferð
  • stuðningsmeðferð

Listinn er ekki tæmandi. Ræddu um meðferðarform við þinn þerapista.

Algengar spurningar

Þegar þú velur meðferðaraðila skiptir máli að hann kunni aðferðir til að meðhöndla þann vanda sem þú ert að takast á við eða sé í handleiðslu hjá meðferðaraðila sem þekkir vel til þess vanda. Það skiptir líka máli að hann beiti þeim aðferðum sem þú vilt nota, hvort sem það er hugræn atferlismeðferð, dáleiðsla, EMDR meðferð eða önnur meðferð.

Hvað segja rannsóknir

Rannsóknir í sálfræði sýna að árangur í meðferð er meðal annars háður því hvaða tengingu þú myndar við meðferðaraðilann þinn.

Ef þú tengir ekki við meðferðaraðilann þinn þá ráðleggjum við að þú skiptir og finnir annan sem hentar þér betur.

  • spurðu meðferðaraðilann þinn að því sem þú vilt vita um hvernig hann vinnur
  • spurðu út í þá reynslu sem hann hefur
  • spurðu líka út í hvernig hann sér fyrir sér að hjálpa þér með þann vanda sem þú ert að takast á við

Ef þér líst á svörin og þú tengir við þennan aðila, þá ertu líklega komin með meðferðaraðila sem hentar þér.

Fortíðin og meðferðarform

Ef þú vilt fókusa á hvaða áhrif fortíðin hefur á líðan þína og vinna með fortíðina til að breyta líðan þinni „í núinu“ þá getur:

  • EMDR meðferð hentað þér
  • blanda af partameðferð getur líka hjálpað

Nútíðin og meðferðarform

Ef þú vilt fókusa meira á einkennin eins og þau birtast í nútíðinni getur

  • hugræn atferlismeðferð
  • núvitund eða
  • Acceptance and Commitment Therapy verið rétta nálgunin fyrir þig

Streita og meðferðarform

Ef þú vilt fókusa meira á streitustjórnun getur:

  • hugræn atferlismeðferð
  • núvitund
  • samkenndarnálgun
  • Safe and sound protocol
  • Acceptance and Commitment Therapy
  • dáleiðsla, slökun og
  • EMDR meðferð hentað þér

Sjálfstyrking

Ef sjálfstyrking er markmiðið þitt geta allar meðferðarnálganir hentað þér.

Ræddu við meðferðaraðilann þinn um þær meðferðarnálganir sem eru í boði og geta hentað þér. Þannig getur þú valið.

Umfang og eðli vandans er mismunandi hjá hverjum og einum. Það er því mjög einstaklingsbundið hvað skjólstæðingar þurfa marga tíma til að ná bata. Þú getur rætt við þinn meðferðaraðila sem metur með þér það meðferðarform og tíma sem gæti hentað þínum vanda.

Hver tími kostar á bilinu 19.000 til 22.000 krónur, fer eftir meðferðaraðila.

Athugið að mörg stéttarfélög taka þátt í kostnaði við meðferð.

Flest stéttarfélög bjóða upp á niðurgreiðslu á kostnaði við viðtalsmeðferð.

Í sumum tilfellum er hægt að óska eftir styrk hjá Félagsþjónustu þess sveitarfélags sem þú býrð í.

Stundum eru atvinnuveitendur tilbúnir til að styrkja starfsfólk sitt um kostnað við viðtöl.

Virk starfsendurhæfingarsjóður er fyrir fólk sem er í hættu á að detta út af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Sálfræðiviðtöl eru í sumum tilfellum hluti af þjónustu Virk.

Stéttarfélög sem taka þátt í kostnaði

Hér á eftir er listi yfir nokkur stéttarfélög og hversu mikið hvert félag styrkir félagsmann til greiðslu á sálfræðikostnaði.  Kynntu þér reglur hjá þínu stéttarfélagi ef það er ekki á listanum hér fyrir neðan. Athugið að sum stéttarfélög hér fyrir neðan geta hafa breytt reglum sínum um upphæðir frá því að þessar upplýsingar voru settar inn.

BHM

  • 80% af útlögðum kostnaði. Hámark 55.000 á hverju almanaksári

BSRB

  • 5.000 krónur fyrir hvert skipti. Hámark 15 skipti á ári.

Efling

  • Greitt er allt að kr. 6.000.- fyrir hvert skipti, þó aldrei meira en 50% af kostnaði í allt að 15 skipti á hverjum 12 mánuðum

Kennarasamband Íslands

  • Sjóðfélagar geta sótt um að hámarki 10.000 kr. styrk, í allt að 10 skipti á hverju 12 mánaða tímabili, fyrir faghandleiðslu

Rafiðnaðarsamband Íslands

  • Greitt er 40% af kostnaði hvers tíma allt að 25 skipti.

Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja

  • Styrkurinn er greiddur fyrir 10 skipti á hverjum 12 mánuðum að hámarki kr. 10.000 fyrir hvert skipti.

SFR

  • Fyrir hvert skipti 5.000.- í allt að 15 skipti á ári

VR

  • Allt að 55.000.- á ári, háð inneign í varasjóði.